David Raya og Aaron Ramsdale eiga í hörkusamkeppni um aðalmarkvaðarstöðuna hjá Arsenal en sá fyrrnefndi er ofan á sem stendur. Spánverjinn segir samband þeirra félaga gott þrátt fyrir samkeppnina.
Raya gekk í raðir Arsenal frá Brentford í sumar og var ekki lengi að vinna sætið af Ramsdale sem hefur eignað sér það undanfarin tvö tímabil.
„Samband okkar er mjög gott. Þegar allt kemur til alls erum við félagar og það er mikilvægt. Sambandið er heilbrigt og það eru engin vandamál,“ segir Raya.
„Við ýtum við hvorum öðrum, ég ýti við honum og þegar ég er ekki upp á mitt besta gerir hann hið sama.“
Raya segir mikilvægt að markverðir standi saman þó þeir séu í samkeppni.
„Við erum oftast 3-4 saman á æfingum og sambandið þarf að vera gott, annars fara æfingarnar ekki vel.“