„Stolt er orð sem nær ekki yfir tilfinningar kvöldsins,“ skrifaði Alexandra Helga Ívarsdóttir, eiginkona Gylfa Þórs Sigurðssonar eftir afrek hans í gærkvöldi. Hann bætti þá markamet íslenska landsliðsins.
Ísland tók á móti Liechtenstein í undankeppni EM 2024 í gær á Laugardalsvelli. Það er óhætt að segja að íslenska liðið hafi átt þennan leik með húð og hári. Það tók þó smá tíma að brjóta ísinn en það gerði Gylfi Þór Sigurðsson með marki af vítapunktinum á 22. mínútu. Hans fyrsta mark með liðinu í um þrjú ár.
Á 49. mínútu var Gylfi á skotskónum á ný þegar hann skoraði þriðja markið. Með því varð hann markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins með 27 mörk.
Um var að ræða fyrsta leik Gylfa í byrjunarliði Íslands í tæp þrjú ár, en eftir erfiða tíma utan vallar og farbann í tæp tvö ár er Gylfi komin á fulla ferð.
„Að sjá þig ná þessu markmiði í þessari mögnuðu endurkomu með dóttur okkar í fanginu, umvafinn fjölskyldu eftir allan þennan tíma er augnablik sem ég gleymi aldrei,“ segir Alexandra.
„Þú átt þetta allt skilið og svo miklu meira.“