Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks er nú sterklega orðaður við þjálfarastarfið hjá uppeldisfélagi sínu KR. Kjaftasagan hefur farið hátt eftir að Óskar lýsti því yfir á sunnudag að draumur hans væri að þjálfa KR.
Í hlaðvarpsþáttum og á kaffistofum hefur því verið haldið fram að Óskar hætti sem þjálfari Breiðabliks að loknu tímabilinu. KR er í þjálfaraleit eftir að stjórn félagsins ákvað að endurnýja ekki samning sinn við Rúnar Kristinsson.
„Auðvitað hefur alltaf verið draumur minn að stýra KR en hvenær og hvort það gerist,“ sagði Óskar Hrafn við Stöð2 Sport eftir tap Breiðabliks gegn KR á sunnudag.
Óskar lék með KR og hefur þjálfað yngri flokka félagsins, hann er að klára fjórða tímabilið sitt í Kópavoginum og hefur unnið einn Íslandsmeistaratitl auk þess að koma liðinu í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
Óskar er hins vegar ekki eini kosturinn sem KR skoðar, Elísabet Gunnarsdóttir er að hætta sem þjálfari Kristianstad eftir fimmtán ár í starfi þar. Er hún ein þeirra sem er nú orðuð við starfið hjá KR.
Elísabet gæti þar með orðið fyrsta konan sem stýrir félagi í efstu deild karla á Íslandi, er hún í hópi færustu þjálfara landsins og gæti þá útspil KR orðið áhugavert.
Fleiri eru nefndir til sögunnar og má þar nefna Sigurð Ragnar Eyjólfsson, Haldór Árnason aðstoðarþjálfari Breiðabliks og fleiri.
Páll Kristjánsson formaður KR gat ekkið tekið símann á meðan þessi frétt var í vinnslu og ekki náðist í Flosa Eiríksson, formann knattspyrnudeildar Breiðabliks.
Samkvæmt heimildum 433.is eru líkur á því að Sigurður Heiðar Höskuldsson hætti sem aðstoðarþjálfari Vals en forráðamenn Þórs á Akureyri liggja nú í honum og vonast til að hann taki við Lengjudeildarliðinu.
Arnar Grétarsson er að klára sitt fyrsta tímabil sem þjálfari Vals og hefur náð góðum árangri. Þrátt fyrir það hafa heyrst sögur um að Rúnar Kristinsson gæti tekið við Val að loknu tímabili.
Hætti Óskar með Breiðablik er Arnar Grétarsson nefndur sem mögulegur arftaki hans, Arnar gerði vel með Breiðablik þegar hann stýrði liðinu frá 2015 til 2017.
Brottrekstur hans var mjög umdeildur á sínum tíma en tíminn læknar öll sár og gæti endurkoma Arnars í Kópavoginn verið í kortunum, fari Óskar Hrafn frá félaginu.
Þannig gæti allt farið í einn hring hjá þessum félögum, Óskar tæki við KR af Rúnari, sem tæki við Val af Arnari sem tæki þá við Breiðablik af Óskari.