Sögulegt augnablik átti sér stað í Kópavogi í kvöld þegar Breiðablik tryggði sér þátttökurétt í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Blikar eru fyrsta íslenska liðið í karlaflokki sem nær þessu afreki.
Breiðablik tók á móti Struga frá Norður-Makedóníu í kvöld í seinni leik liðanna, en fyrri leiknum lauk með 0-1 sigri Blika úti.
Niðurstaðan í dag varð sú sama og Blikar vinna því samanlagt 2-0 og eru komnir í riðlakeppnina.
Viktor Karl Einarsson gerði eina mark leiksins í dag á 3. mínútu. Blikar höfðu mikla yfirburði á vellinum en tókst ekki að bæta við marki.