Albert Guðmundsson var ekki valinn í landsliðshóp Age Hareide fyrir leiki Íslands gegn Lúxemborg og Bosníu-Hersegóvínu í næsta mánuði eins og vitað var. Albert var á dögunum kærður fyrir kynferðisbrot. Landsiðsþjálfarinn tjáði sig um málið á blaðamannafundi í dag.
Nú er það skýrt í reglum KSÍ að leikmaður sem sætir lögreglurannsókn verði ekki valinn í landsliðshópinn. Það var því vitað að Albert yrði ekki valinn þegar hópurinn var tilkynntur í dag.
„Ég hef talað við leikmanninn og útskýrt reglurnar hér á landi. Við þurfum að horfa annað. Hann veit hverjar reglurnar hjá sambandinu eru,“ sagði Hareide í dag.
„Ég er auðvitað mjög vonsvikinn með að svona hlutir komi upp. Þetta er auðvitað algjörlega úr mínum höndum. Við getum ekki haft augun á leikmönnum 24 tíma sólarhrings þegar það er ekki landsleikjagluggi.“
Albert átti góðan landsleikjaglugga í sumar og heggur þetta því skarð í liðið.
„Albert var einn af þeim leikmönnum sem lagði hvað harðast af sér í leikjunum. Því miður gerast svona hlutir. Það er óþarfi að koma sér í þessa stöðu.
Það sem ég hef sagt við hina leikmennina er að við þurfum að halda hausnum við fótboltann. Það sjá aðrir um þetta og þetta má ekki hafa nein áhrif á okkur. Stundum meiðast leikmenn og þá þarftu að finna nýja. Nú er ekki hægt að velja Albert og þá þurfum við að finna nýja leikmenn. Við þurfum að búa til menningu sem einblínir bara á fótbolta.“
Hareide var spurður út í það hvort hann væri sammála þeim reglum sem sambandið setur.
„Ég verð að fylgja þeim reglum sem sambandið setur og það mun ég gera. Albert veit hverjar reglurnar eru og samþykkir þær.“