Gylfi Þór Sigurðsson flaug frá Íslandi til Kaupmannahafnar í dag. Hann hefur verið orðaður við Lyngby sem leikur þar í borg. Fótbolti.net greinir frá.
Hinn 33 ára gamli Gylfi hefur ekki spilað knattspyrnu í meira en tvö ár en þá var hann á mála hjá Everton í ensku úrvalsdeildinni.
Hann hefur æft með Val í sumar og var orðaður við félagið en nokkuð ljóst er að hann fer ekki þangað.
Freyr Alexandersson þjálfar Lyngby og Sævar Atli Magnússon, Kolbeinn Birgir Finnsson og Andri Lucas Guðjohnsen spila allir með liðinu. Freyr sagði á dögunum að helmingslíkur væru á að Gylfi skrifaði undir hjá félaginu.
Frétt Fótbolta.net í kvöld virðist allavega ýta undir að Gylfi sé á leið til danska félagsins.