Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks og Ólafur Kristjánsson yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu hafa ekki átt samskipti í fleiri vikur og jafnvel mánuði. Samkvæmt öruggum heimildum 433.is.
Það vakti nokkra athygli þegar greint var frá því í síðustu viku að Breiðablik væri búið að segja Ólafi upp störfum, vinnur hann þó sinn uppsagnarfrest.
Stjórn Breiðabliks réð Ólaf til starfa fyrir tæpu einu og hálfu ári síðan en nokkuð snemma í ferlinu varð ljóst að vinnusambands hans og Óskar var og yrði stirt. Þetta herma heimildir 433.is.
Breiðablik segir að verið sé að fara í skipulagsbreytingar en þær vill Flosi Eiríksson formaður félagsins ekki ræða. „Nei það er ekkert svoleiðis sem ég vil ræða,“ segir Flosi í samtali við 433.is í dag þegar hann er spurður út í það hvaða breytingar Breiðablik er að ara í.
Heimildarmenn 433.is eru á sama máli að Óskar hafi lítið viljað starfa með Ólafi og undir það síðasta ekki viljað eiga nein samskipti við hann.
Flosi vill ekki ræða hvort það tengist uppsögn Ólafs. „Nei ekki neitt, og við ætlum ekkert að tjá okkur um þetta,“ segir Flosi.
Hann vill ekki kannast við það að Óskar og Ólafur hafi ekki rætt saman í lengri tíma. „Ég held að það sé ekki rétt en ég er ekki að fara að ræða nein innanhúss mál,“ segir Flosi
Samkvæmt heimildum 433.is voru samskiptin komin á þann stað að Óskar Hrafn vildi ekki sjá það að Ólafur væri í kringum æfingar hjá meistaraflokki karla, var honum í raun bannaður aðgangur að æfingum liðsins.
Heimildarmenn 433.is telja að margir sem starfa í kringum Breiðablik séu ósáttir með Óskar Hrafn en að öll stjórnin og þar með talinn formaður félagsins standi þétt við bak hans og túlka margir uppsögn Ólafs sem trausts og stuðningsyfirlýsingu við þjálfarann sem gerði Breiðablik að Íslandsmeisturum á síðasta ári. Óskar og hans lærisveinar eru svo er í dauðafæri á að verða fyrsta íslenska liðið í karlaflokki sem kemst í riðlakeppni í Evrópu.