Robin van Persie fannst óþægilegt þegar hann gekk inn á Emirates-leikvanginn, heimavöll Arsenal, í fyrsta sinn sem leikmaður gestaliðsins og heimamenn stóðu heiðursvörð fyrir hann og liðsfélaga sína í Manchester United.
Þetta opinberaði hollenski framherjinn fyrrverandi í viðtali á dögunum.
Van Persie gekk í raðir United frá Arsenal sumarið 2012 á 22,5 milljónir punda. Hann hafði slegið í gegn með Skyttunum tímabilið á undan.
Á sinni fyrstu leiktíð með United vann Van Persie Englandsmeistaratitilinn. Eftir að hafa tryggt sér hann heimsótti United Arsenal. Eins og venjan er víða stóðu leikmenn síðarnefnda liðsins heiðursvörð fyrir nýkrýnda meistara.
„Mér líkaði þetta ekki. Nokkrir vinir mínir voru þarna. Ég var þarna í átta ár og var bara sáttur þegar þessari athöfn var lokið,“ segir Van Persie.
„Ég sá í andlitum þeirra að þeim líkaði þetta ekki, sem ég skil. Það er flott að gera þetta fyrir ríkjandi meistara en mér fannst þetta ekki rétt þarna, ekki fyrir mig eða Arsenal. Þetta var vandræðalegt og mér leið ekki mjög vel með þetta. Fyrir mér þurfti þetta ekki að gerast. Þetta er hefð en mér líkaði ekki við þetta akkúrat þarna.“
Hér að neðan má sjá atvikið sem um ræðir.
📆 ON THIS DAY: 2013, Robin van Persie receives a guard of honour on his return to the Emirates. [@footballdaily] 🔴⚪️⚫️#MUFC pic.twitter.com/XSMrQlHAuU
— UtdXtra (@Utd_Xtra_) April 28, 2023