Launakostnaður liða í Bestu deild karla var birtur í skýrslu Deloitte og KSÍ fyrir helgi. Þar kom í ljós að Valur greiðir mestan launakostnað til leikmanna, eða 209 milljónir króna árið 2022. Þetta var tekið fyrir í Dr Football og þar vakti launakostnaður KR sérstaklega athygli.
Launakostnaður KR var nefnilega aðeins 61 milljón samkvæmt skýrslu Deloitte en samkvæmt ársreikningi KR var launakostnaður um 149 milljónir.
„Við vitum að þetta er bull, ég sé þetta hjá KR að þetta eru 150 milljónir,“ sagði Hjörvar Hafliðason sérfræðingur um málið og vitnaði þar um ársskýrslu KR.
Jóhann Már Helgason fyrrum framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Vals var gestur í þættinum og fór yfir málið.
„Ég henti mér inn á vef KR og fletti upp leikmannalistanum frá 2022, ég sló inn það sem ég held að þeir séu sirka á. Ég reyndi að hafa tölurnar í lægri kantinum, þetta eru 20 leikmenn. Ég lenti þessu á 120 milljónum og það eru lægri mörkin. Ég er ekki með þjálfarateymið,“ sagði Jóhann og taldi 149 milljónir vera réttu töluna.
Bent var á að mögulega væru fyrirtæki út í bæ að borga hluta af launum hjá leikmönnum KR. „Ég ætla að vona að það sé þannig frekar en að þeir séu að borga svart. Það vantar eitthvað þarna upp á,“ sagði Jóhann og vitnaði í skýrslu Deloitte.
Hjörvar segir að 149 milljónir sé rétta talan. „Kristján Flóki er á einum besta samningum í efstu deild,“ sagði Hjörvar.