Massimo Nenci, fyrrum markmannsþjálfari Chelsea, hefur tjáð sig um atvikið fræga sem átti sér stað í úrslitaleik deildabikarsins árið 2019.
Kepa Arrizabalaga, markmaður Chelsea, neitaði þá að koma af velli fyrir Willy Caballero í úrslitaleiknum sem gerði Maurizio Sarri, stjóra liðsins, brjálaðan.
Kepa taldi að Sarri væri að skipta sér af velli vegna meiðsla en hann hafði glímt við smávægileg meiðsli fyrir leik.
Það var hins vegar taktísk ákvörðun að skipta Kepa fyrir Willy Caballero í vítaspyrnukeppni, eitthvað sem Spánverjinn áttaði sig ekki á.
,,Í upptbótartímanum þá taldi Maurizio að við ættum að skipta Kepa af velli fyrir Caballero því Caballero er góður í að verja víti og gegn hans fyrrum félagi væri það fullkomið,“ sagði Nenci.
,,Kepa skildi ekki skiptinguna og skildi ekki að þetta væri taktísk ákvörðun, þetta var ekki vegna meiðslana. Willy var frábær á punktinum.“
,,Allir voru reiðir í búningsklefanum en það sem ég þarf að taka fram er að Kepa er mjög, mjög góður náungi. Þegar hann áttaði sig á mistökunum þá hágrét hannm.“
,,Hann baðst innilegrar afsökunar og sagðist ekki skilja það sem hafði átt sér stað.“