Spænski varnarmaðurinn Sergio Ramos hefur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna. Frá þessu greindi leikmaðurinn sjálfur í færslu á samfélagsmiðlum.
Hinn 36 ára gamli Ramos á að baki landsliðsferil sem spannar 18 ár og 180 A-landsleiki sem er met hjá leikmanni spænska landsliðsins.
Ramos tók þátt í fjöldamörgum stórmótum með spænska landsliðinu og varð í tvígang Evrópumeistari og heimsmeistari einu sinni.
Síðasti landsleikur hans fyrir spænska landsliðið var leikur gegn Kosóvó í mars árið 2021 en skilaboð frá landsliðsþjálfaranum Luis de la Fuente sannfærðu Ramos að hann ætti ekki endurkomuleið í landsliðið.
Fuente hafði tjáð Ramos að hann væri ekki hluti af hans framtíðarplönum hjá spænska landsliðinu.
,,Ég vonaðist til þess að geta lengt landsliðsferilinn, að ég gæti bundið enda á hann með betri tilfinningu,“ skrifar Ramos meðal annars í færslu á samfélagsmiðlum.
Það má skilja á færslu Ramos að hann er ekki allkosta sáttur með málavendingarnar.
,,Ég trúi því hreinskilnislega að ég hafi verðskuldað að ákveða það sjálfur hvernig landsliðsferillinn endar.“
View this post on Instagram