Slakt gengi Liverpool á þessu tímabili hefur vakið mikla athygli, eftir að hafa verið eitt besta lið Englands síðustu ár er gengi Liverpool í frjálsu falli.
Liverpool er með 29 stig í ensku úrvalsdeildinni eftir 20 leiki en er það einn slakasti árangur í 31 árs sögu ensku úrvalsdeildarinnar.
Slakasti árangur Liverpool hingað til kom tímabilið 2010/2011 þegar Roy Hodgson var stjóri liðsins, sótti liðið þá 25 stig í 20 leikjum.
Brendan Rodgers var rekinn úr starfi Liverpool árið 2015 en á því ári sótti hann 29 stig í 20 deildarleikjum sem er sami stigafjöldi og Jurgen Klopp hefur náð í ár.
Ljóst er að Jurgen Klopp er í holu með lið sitt en gengið undanfarnar vikur hefur ekki verið gott. Klopp hefur stýrt Liverpool í tæp átta ár en þetta er í fyrsta sinn á þeim tíma sem liðið er í krísu.