Hrafnhildur Agnarsdóttir, fyrrum leikmaður KR í efstu deild kvenna í knattspyrnu hér á landi, fékk nóg af umræðunum á Facebook-hópi stuðningsmanna Manchester United á Íslandi í gær.
Þar var verið að ræða Mason Greenwood, leikmann liðsins. Allar ákærur gegn honum voru látnar niður falla í gær. Greenwood hefur ekki spilað fótbolta í meira en ár í kjölfar þess að hann var ákærður fyrir tilraun til nauðgunar, stjórnandi hegðun og líkamsárás, allt gegn fyrrverandi kærustu sinni Harriet Robson.
Einhverjir í Facebook-hópnum fögnuðu því að mál Greenwood hafi verið látið niður falla og þeirri tilhugsun að hann gæti snúið aftur á völlinn.
„Mér sýnist við vera að fá magnaðan framherja loksins. Verður forvitnilegt að sjá á næstu vikum hvað verður,“ skrifaði einn.
„Geggjað að fá hann aftur. Þetta síðastliðna ár ætti að vera nægjanleg refsing fyrir hann ef hann er sekur,“ skrifaði annar.
Þess ber þó að geta að alls ekki er víst hvort Greenwood fái að spila fyrir United á ný.
„Jæja þetta er orðinn veikari hópur en Mæðratipssamfélagið, takk fyrir samveruna,“ skrifaði Hrafnhildur á Twitter, er hún tilkynnti að hún ætlaði að segja sig úr hópnum.