Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu í flokki 21 árs og yngri dróst í riðil með Dönum, Tékkum, Litháen og Wales í undankeppni Evrópumótsins 2025. Dregið var í dag. Davíð Snorri Jónasson þjálfar Ísland og er spenntur fyrir verkefninu, sem hefst í haust.
„Fyrstu viðbrögðin voru góð. Þetta er spennandi verkefni að takast á við. Við fáum góða leiki við góð lið og það er það sem ég er ánægður með,“ segir Davíð í samtali við 433.is.
Ísland var nálægt því að komast í lokakeppnina sem fram fer í ár en tapaði í umspili, einmitt gegn Tékkum. Ljóst er að breytingar verða á leikmannahópum á milli keppna í ljósi aldurstakmars. „Ég á von á því að það verði breytingar á flestum liðum,“ segir Davíð.
Leikmenn fæddir 2002 og fyrr eru gjaldgengir í undankeppni EM 2025. Það hefur verið erfiðara að fylgjast með leikmönnum á þessu aldursreki undanfarin ár sökum kórónuveirufaraldursins. Evrópumóti U-19 ára og yngri var til að mynda aflýst bæði 2020 og 2021.
„Það eru allir í sömu stöðu þar. Það er kannski erfitt að lesa í það. Stundum getur maður lesið í árgangana með því að skoða hvernig þeir voru í U-17 og svo U-19 en nú er það aðeins erfiðara.“
Davíð þarf að stokka upp í liði sínu að hluta fyrir næstu undankeppni. Hann hefur verið að skoða leikmenn undanfarið, til að mynda í vináttulandsleik gegn Skotum í nóvember, sem vannst 2-1. Þá mætir liðið Írum ytra í lok mars.
„Fyrsta verkefnið hjá þessu liði var að spila í nóvember við Skota. Svo verður U-19 keppnin búin þegar næsta U-21 árs keppnin byrjar þannig leikmenn fæddir 2004 og 2005 geta líka barist um sæti í liðinu. Við verðum með spennandi og skemmtilegt lið.“
Davíð hefur kallað saman lið til æfinga í næstu viku sem aðeins er skipað leikmönnum sem spila hér heima.
„Við erum að skoða leikmenn. Við tókum æfingalotu áður en við fórum út í nóvember. Þá hittumst við með þennan hóp og svo aftur núna. Ég hlakka til að hitta þessa stráka í næstu viku. Það eru sæti í boði fyrir leikinn við Írana,“ segir Davíð Snorri Jónasson.