Úkraínski miðjumaðurinn Mykhailo Mudryk, einn af nýjustu leikmönnum Chelsea hefur beðist afsökunar á því að hafa notað N-orðið í myndbandi til stuðningsmanna sinna.
Ekki er langt síðan að Mudryk gekk til liðs við Chelsea frá Shakhtar Donetsk á rúmar 88 milljónir punda og í kjölfarið beindist kastljósið meira að honum.
Umrætt myndband birtist á TikTok í júlí á síðasta ári og horft hefur verið á það yfir 214 þúsund sinnum að sögn The Sun.
Talsmenn Mudryk segja hann hafa verið að vitna í texta við lagið Freestyle eftir Lil Baby.
,,Mudryk er miður sín á því að hafa sært einhverja í myndbandinu… Ætlun hans var eingöngu að vitna í texta umrædds lags en hann sér eftir þeirri ákvörðun og gengst við því að þetta hafi ekki verið viðeigandi. Myndbandið hefur nú verið fjarlægt.“
Kick It Out samtökin, sem berjast gegn kynþáttaníð í knattspyrnuheiminum, fordæma alla notkun N-orðsins.
„N-orðið er mjög móðgandi og notkun á þessu hugtaki af hátt settum mönnum í knattspyrnuheiminum verður aðeins til þess að fólk verði útilokað frá leiknum.“