Jamie Carragher, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu og núverandi sérfræðingur Sky Sports í tengslum við ensku úrvalsdeildina segir að það muni reynast Graham Potter, knattspyrnustjóra Chelsea afar erfitt að taka alla nýju leikmenn félagsins inn í leikmannahópinn og gera þeim kleift að aðlagast.
„Það er vandamál út af fyrir sig að koma þessum leikmönnum inn í hópinn, eitthvað sem maður myndi vilja gera á undirbúningstímabili, það er alveg augljóst. Svo er líka spurning hvaða áhrif þetta hefur á leikmennina sem voru fyrir hjá Chelsea.
Chelsea hefur farið mikinn á leikmannamarkaðnum í janúar. Fjölmargir leikmenn hafa gengið til liðs við félagið og bæst gæti við þann hóp fyrir lok félagsskiptagluggans í kvöld.
„Það er erfitt að halda öllum ánægðum,“ sagði Carragher á Sky Sports. „Þú verður að halda öllum góðum og í þannig stöðu að þeir telja sig eiga möguleika á því að spila og legga eitthvað af mörkum. Þetta gæti orðið stórt vandamál fyrir Graham Potter allt þar til loka yfirstandandi tímabils.“
Einhverjir leikmenn eru þó á förum frá félaginu á næstu klukkustundunum, til að mynda Jorginho sem er hársbreidd frá því að ganga til liðs við Arsenal.
Chelsea er að upplifa sína fyrstu félagsskiptaglugga undir stjórn nýs eiganda, Todd Boehly og Clearlake Capital en alls hafa þeir eytt um 500 milljónum punda í leikmannahópinn.
„Þeir hafa klárlega stigið á bensíngjöfina undanfarna félagskiptaglugga og nýju eigendurnir hafa haft mikið að segja þar en hversu langt mun það fleyta þeim? Hver veit.
Stærsta samanburðarhæfa dæmið er Manchester United sem hafa, undanfarin tíu ár, hent ótrúlegu magni af fjármunum í sitt lið en einhvern veginn aldrei komist á þann stað sem félagið vill vera á.“