Arsenal er eitt þeirra félaga sem íhugar nú að gera ítalska miðjumanninn Jorginho, leikmann Chelsea að leikmanni sínum. Það er David Ornstein hjá The Athletic sem greinir frá.
Félagsskiptaglugganum á Englandi lýkur annað kvöld og því þurfa félögin að hafa hraðar hendur.
Leikmannahópur Arsenal er mjög þunnskipaður á miðsvæðinu þar sem Thomas Partey er að glíma við smávægileg meiðsli og þá er ekki búist við því að Mohamed Elneny leiki meira á tímabilinu.
„Arsenal hefur ný lýst yfir áhuga sínum á ítalska landsliðsmanninum Jorginho. Önnur félög horfa einnig hýru auga til leikmannsins,“ segir í frétt The Athletic um málið.
Samningur Jorginho við Chelsea rennur út í sumar og þar með hættir Chelsea á að hann fari á frjálsri sölu frá félaginu verði hann ekki seldur næsta sólarhringinn.
Á meðan þetta á sér stað hefur Chelsea lagt inn risatilboð, sem hljóðar upp á 105 milljónir punda, í argentínska miðjumanninn Enzo Fernandez. Gangi þau félagsskipti í gegn er ljóst að Jorginho færist aftar í goggunarröðina á Stamford Bridge.
„Allar tilraunir Arsenal til þess að næla í Jorginho velta á því hvernig Chelsea gengur að næla í Enzo Fernandez.“
Arsenal hefur undanfarna daga reynt að kaupa miðjumanninn Moises Caicedo frá Brighton en án árangurs.
Jorginho er reynslumikill 31 ára gamall miðjumaður sem hefur verið á mála hjá Chelsea síðan árið 2018. Hann gekk til liðs við Chelsea frá Napoli á Ítalíu.
Hjá Chelsea hefur Jorginho unnið Meistaradeild Evrópu, Evrópudeildina, Heimsmeistarakeppni félagsliða og Ofurbikar Evrópu. Þá var hann árið 2021 valinn besti leikmaður Evrópu í vali UEFA.
Jorginho á að baki 213 leiki í öllum keppnum fyrir Chelsea. Í þeim leikjum hefur hann skorað 29 mörk og gefið 9 stoðsendingar.
🚨 Arsenal among clubs exploring possibility of signing Jorginho from Chelsea. Italy midfielder’s contract up in summer + #CFC open to exit (may depend on Enzo Fernandez). 31yo one of options #AFC have expressed interest for. W/ @gunnerblog @TheAthleticFC https://t.co/oFfGfI1cEx
— David Ornstein (@David_Ornstein) January 30, 2023