UEFA hefur boðað breytingar á á Þjóðadeild og undankeppni Heims- og Evrópumóts karlalandsliða. Þær voru kynntar að loknum fundi sambandsins í Sviss.
Sambandið segir breytingarnar á keppnunum vera til að gera þær meira spennandi. Verða þær þó leiknar yfir jafnlangt tímabil og áður.
Einni umferð af útsláttarkeppni verður bætt við Þjóðadeildina. Í núverandi fyrirkomulagi lýkur riðlakeppninni í nóvember og úrslitin fara fram í júní. Nú verður annari umferð í mars bætt við. Bætist þó ekki við fjölda leikja á ári þar sem þeim er fækkað í undankeppnum EM og HM á móti. Þetta er útskýrt neðar.
Í þessu fyrirkomulagi munu sigurvegarar riðla sinna í A-deild mæta þeim liðum sem hafna í öðru sæti í 8-liða úrslitum, þar sem leikið verður heima og að heiman. Fara þessir leikir fram annað hvert ár, þegar ekki er leikið í lokakeppni HM eða EM.
Þá munu liðin í þriðja sæti í A-deild og öðru sæti í B-deild mætast í umspili, þar sem barist verður um að hald sæti sínu í A-deild eða komast upp í hana. Það sama verður uppi á teningnum með liðin sem hafna í þriðja sæti í B-deild og öðru sæti í C-deild.
Tekur þetta gildi haustið 2024.
Breytingar á undankeppnum
Þá eru einnig boðaðar breytingar á undankeppni Heims- og Evrópumótsins. Fækkað verður í hverjum riðli og þeim fjölgað. Nánar til tekið verður riðlunum fjölgað í tólf og aðeins fjögur til fimm lið verða í riðli. Til samanburðar er Ísland í sex liða riðli í undankeppni EM 2024.
Sigurvegarar riðla munu fara beint áfram og liðin í öðru sæti fara annað hvort beint áfram eða í umspil.
Tekur þetta gildi eftir EM 2024.
Snýr hitapylsan aftur?
Margir muna eftir því þegar hitapylsan fræga var sett á Laugardalsvöll fyrir umspilsleik við Rúmeníu í mars 2020, sem að vísu var aldrei leikinn þar sem kórónuveiran skall á.
Ljóst er að með nýrri umferð Þjóðadeildarinnar í mars, þar sem leikið er heima og að heiman, eru líkur á að Ísland þurfi að nota Laugardalsvöllinn á þessum árstíma á næstu árum. Það er því spurning hvort draga þurfi fram hitapulsuna á nýjan leik.
KSÍ rifjaði þetta upp í tilefni nýju tíðindanna.
Muniði þegar A landslið karla átti að spila umspilsleik á Laugardalsvelli í mars 2020??🥶😷https://t.co/sG4VvgtPjN
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) January 26, 2023