Spænska knattspyrnugoðsögnin Xavi, nú knattspyrnustjóri spænska stórveldisins Barcelona hefur beðist afsökunar á ummælum sínum um fyrrum leikmann og samherja sinn hjá félaginu, Dani Alves sem situr nú í fangelsi grunaður um kynferðisofbeldi gegn konu á skemmtistað.
Rannsókn á málinu stendur yfir en brot Alves er sagt hafa átt sér stað á skemmtistað í Barcelona en Alves lék um árabil með knattspyrnufélagi borgarinnar.
Dani Alves handtekinn vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi
Fyrir leik Barcelona og Getafe í spænsku úrvalsdeildinni á dögunum lét Xavi hafa það eftir sér í viðtali að hann fyndi til með Alves.
„Það er erfitt að kommenta á svona hluti. Ég er hissa á þessu, í sjokki. Nú er þetta spurning um réttlæti. Réttlæti mun ná fram að ganga sem hver niðurstaðan verður. Ég finn mjög til með Dani.“
Degi eftir ummæli sín í viðtali sá Xavi sig tilneyddan til
„Mig langar að útskýra það sem ég sagði í gær,“ sagði Xavi. „Ég held að það sem ég átti við hafi verið misskilið. Ég gekk ekki nógu sterklega fram með orðum mínum.
Ég sleppti sjónarhorni þolenda og ég tel að öll svona brot ætti að fordæma. Hvort sem Dani eða einhver annar á í hlut. Ég kom þessu ekki nægilega vel frá mér og ég bið þolandann og þolendur kynbundins ofbeldis og þessarar tegundar kynferðisbrota afsökunar.
Að þessu sögðu þykir mér leitt að Dani skyldi hafa getað gert svona hlut. Ég er hneykslaður. Allur minn stuðningur er við þolandann í málinu. Í gær hafði ég ekki rétt fyrir mér, fékk á mig mikla gagnrýni og ég skil það vel.“