Lið Real Madrid mun halda ró sinni í janúarglugganum og ætlar ekki að fá inn ferskt blóð fyrir komandi átök.
Þetta staðfestir spænski miðillinn Marca en Real hefur ekki verið á góðu skriði undanfarið og tapaði gegn Villarreal í La Liga og svo gegn Barcelona í úrslitaleik Ofurbikarsins.
Stuðningsmenn Real telja að það þurfi að styrkja hópinn en Carlo Ancelotti, stjóri liðsins, telur sig geta unnið með núverandi leikmenn.
Real er í harðri toppbaráttu í La Liga og er þremur stigum á eftir Barcelona og á einnig leiki við Liverpool framundan í Meistaradeildinni.
Það gæti reynst liðinu mikilvægt að fá inn nýja sterka leikmenn en það verður ekki niðurstaðan í þessum glugga.