Steven Gerrard hefur verið án starfs frá því hann var látinn fara frá Aston Villa í haust. Það gæti þó senn breyst.
Það komu nokkur óvænt tíðindi frá Póllandi í gær þess efnis að knattspyrnusambandið þar í landi hefði áhuga á að ráða Gerrard til starfa sem þjálfara karlalandsliðsins.
Pólska sambandið ákvað að framlengja ekki samning Czeslaw Michniewicz sem þjálfara eftir Heimsmeistaramótið í Katar, þar sem Pólverjar fóru í 16-liða úrslit.
Starfið er því laust og er talið að Pólverjar hafi sett sig í samband við Gerrad.
Eins og allir vita er Gerrard goðsögn hjá Liverpool, þar sem hann lék nær allan sinn feril.
Hjá pólska landsliðinu myndi hann hitta fyrir Matty Cash. Bakvörðurinn lék undir hans stjórn hjá Villa.
Cash er fæddur og uppalinn á Englandi en gat valið að spila fyrir Pólland vegna tengsla við landið.