Atletico Madrid er tilbúið að lána út Joao Felix. Þessu greinir David Ornstein frá á The Athletic.
Felix, sem er 23 ára gamall, kom til Atletico frá Benfica árið 2019 fyrir rúmar 100 milljónir punda.
Á þessari leiktíð hefur hann hins vegar ekki verið í stóru hlutverki og vill fara.
Sem stendur vill Atletico lána hann en biður félagið hins vegar um þrettán milljónir punda í lánsfé.
Arsenal og Manchester United eru líklegustu áfangastaðir Felix ef hann fer. Þeim finnst upphæðin hins vegar of há.
Ofan á hana þyrfti að greiða laun hans, alls rúmar fimm milljónir punda, það sem eftir lifir tímabils.
Bæði Arsenal og United leita að styrkingu í sóknarlínuna. Arsenal missti Gabriel Jesus í meiðsli á Heimsmeistaramótinu í Katar og Cristiano Ronaldo hefur yfirgefið United.