Harry Maguire, varnarmaður Englands, fær ósanngjarna gagnrýni að sögn miðjumannsins Kalvin Phillips.
Phillips er liðsfélagi Maguire í enska landsliðinu en sá síðarnefndi spilar með Manchester United.
Maguire hefur misst sæti sitt sem fastamaður í liði Man Utd og er ekki vinsæll á meðal margra stuðningsmanna félagsins í dag.
Phillips hefur þó tröllatrú á landa sínum fyrir leik gegn Frökkum í 8-liða úrslitum HM á morgun.
,,Ég veit að Harry hefur ekki spilað eins mikinn fótbolta á þessu tímabili og hann hefði viljað,“ sagði Phillips.
,,Hann fær mikla gagnrýni sem er ósanngjörn. Hann er frábær atvinnumaður og stórkostlegur fótboltamaður og það eina sem þú þarft að gera er að horfa á hann á stórmótum.“
,,Hann er einn besti varnarmaður heims og fyrir England hefur hann verið á toppnum í langan tíma.“