Kyle Walker, hægri bakvörður enska landsliðsins, á verðugt verkefni fyrir höndum á laugardagskvöldið þegar England mætir Frakklandi í 8-liða úrslitum Heimsmeistaramótsins í Katar. Það kemur líklega í hans hlut að stoppa Kylian Mbappe.
Walker hefur mætt Mbappe nokkrum sinnum sem leikmaður Manchester City gegn Paris Saint-Germain.
„Ég hef spilað gegn honum áður og það hjálpar auðvitað. Hann er samt frábær leikmaður á frábæru skriði svo þetta verður ekki auðvelt. Hann er einn sá besti í dag,“ segir Walker á blaðamannafundi.
„Ég veit að ég þarf að stoppa hann. Ég veit samt hvað ég get og verð að nálgast þetta eins og aðra leiki. Ég þarf að veita honum þá virðingu sem hann á skilið en ekki of mikla.“
Walker vildi hins vegar ekki ræða Mbappe of mikið.
„Þetta er ekki England gegn Mbappe. Þetta er England á móti Frakklandi. Við vitum að hann er góður leikmaður en ég ætla ekki að rúlla út rauða dreglinum fyrir hann.“