Cesar Azpilicueta, fyrirliði Chelsea, þvertekur fyrir það að Spánn hafi tapað viljandi gegn Japan í vikunni til að henda Þýskalandi úr keppni.
Spánn tapaði óvænt gegn Japan í lokaleik sínum í riðlinum sem þýðir að Þýskaland fer heim þrátt fyrir 4-2 sigur á Kosta Ríka.
Spánverjar hafa verið ásakaðir um að tapa þessum leik viljandi, vitandi það að þá væri Þýskaland á heimleið.
Azpilicueta spilaði hálfleik í 2-1 tapinu gegn Japan en hann harðneitar fyrir það að liðið hafi viljandi tapað.
,,Ég vissi af stöðunni í leik Þýskalands. Ég var á bekknum og vissi stöðuna. Ef þeir horfa á okkar riðlakeppni síðustu ár þá höfum við alltaf gefið allt í verkefnið og reynum að vinna hvern einasta leik,.“ sagði Azpilicueta.
,,Okkur var refsað fyrir að skora aðeins eitt mark og svo fengum við annað beint í andlitið, þannig spilum við. Við erum vonsviknir með að vinna ekki leikinn.“
,,Þetta er eitthvað sem þú getur ekki stjórnað, hinn leikurinn, við vissum að við þyrftum að gera okkar og reyna að hjálpa samherjum að vinna leikinn. Við vissum að með jafntefli eða sigri þá myndum við komast áfram, það er það eina sem við stjórnum.“