Josko Gvardiol hefur heillað undanfarna mánuði. Ekki hefur áhuginn á honum minnkað á Heimsmeistaramótinu í Katar sem nú stendur yfir. Þar leikur hann með króatíska landsliðinu.
Þessi tvítugi miðvörður er á mála hjá RB Leipzig í Þýskalandi og gerði hann þar langtíma samning.
Það er þó talið að það hafi aðeins verið til að tryggja Leipzig sterkari stöðu í viðræðum við önnur félög um leikmanninn.
Gvardiol hefur einna helst verið orðaður við Chelsea og var um tíma útlit fyrir að hann færi hreinlega þangað undir lok síðasta sumars.
Það gæti enn farið svo að kappinn endi á Stamford Bridge.
„Kannski fer ég þangað einn daginn,“ segir Gvardiol í samtali við The Athletic.
Gvardiol lék allan leikinn fyrir Króata í markalausu jafntefli gegn Belgum í gær, þar sem liðið tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum.