Einhverjir knattspyrnuáhugamenn, þá sérstaklega þýskir, eru ósáttir við ákvörðun dómara í leik Japans og Spánverja að leyfa seinna marki fyrrnefnda liðsins að standa í 2-1 sigri.
Úrslitin þýða að Spánverjar og Japanir fara áfram í 16-liða úrslit Heimsmeistaramótsins í Katar en Þýskaland er hins vegar úr leik þrátt fyrir 4-2 sigur á Kosta Ríka í sama riðli.
Einhverjir vildu meina að boltinn hafi verið farinn allur út af áður en Ao Tanaka skoraði sigurmark Japans.
Það er mismunandi eftir því hvaða sjónarhorn er skoðað. Á einhverjum virðist boltinn allur farinn aftur fyrir endamörk en ef litið er ofan frá má sjá að lítill hluti boltans er enn inni á vellinum.
Myndir af þessum tveimur sjónarhornum má sjá hér að neðan.