Luis Suarez fékk erfiðar spurningar á blaðamannafundi í Katar í dag. Úrúgvæ mætir Gana á Heimsmeistaramótinu á morgun.
Um lokaleik liðanna í riðlakeppninni er að ræða. Er þetta hálfgerður úrslitaleikur um sæti í 16-liða úrslitunum, en Portúgal hefur þegar tryggt sig upp úr riðlinum.
Það muna ansi margir eftir atvikinu á HM 2010 þegar Suarez varði boltann á línunni með höndunum í leik þessara liða. Gana fékk vítaspyrnu en Asamoah Gyan klikkaði á henni.
Úrúgvæ sigraði svo í vítaspyrnukeppni og fór þar með í undanúrslit.
Ganverskur blaðamaður skóf ekki af því á blaðamannafundi í dag. „Margir í Gana líta á þig sem sjálfan djöfulinn og hlakka til að binda endi á feril þinn,“ sagði hann.
Suarez sagði ekki hægt að kenna sér um atvikið. „Það var leikmaður Gana sem klúðraði vítinu, ekki ég. Ef ég hefði tæklað leikmann og meitt hann hefði ég kannski beðist afsökunar. En þetta var ekki mér að kenna.“