KR hefur fengið til sín nýjan aðstoðarþjálfara en Norðmaðurinn Ole Martin Nesselquist hefur skrifað undir samning við félagið.
Um er að ræða 29 ára gamlan þjálfara sem kemur til KR frá Viking í Noregi og vann þar góð störf.
Nesselquist á einnig að baki reynslu sem þjálfari í neðri deildum Noregs og mun aðstoða Rúnar Kristinsson á næsta tímabili.
Tilkynning KR:
Knattspyrnufélag Reykjavíkur hefur ráðið Ole Martin Nesselquist sem aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla í knattspyrnu. Samningurinn er til þriggja ára.
Ole Martin kemur til liðsins frá Viking Stavanger þar sem hann var aðstoðarþjálfari á síðasta tímabili.
Þrátt fyrir ungan aldur (29) þá hefur Ole Martin þjálfað á hæsta stigi í Noregi í fjölda ára en hann byrjaði sinn þjálfaraferil í meistaraflokki sem aðalþjálfari Trossvik IF. Hann náði að stýra Trossvik upp um deild á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari, þá 19 ára, sem varð það til þess að gera nafn hans gildandi í norskum fótbolta.
Síðan þá hefur Ole Martin þjálfað Moss FK og Strømmen IF áður en hann tók við sem aðstoðarþjálfari hjá Viking Stavanger í norsku úrvalsdeildinni, Eliteserien ásamt því að klára æðstu þjálfaragráðu UEFA, UEFA Pro.
,,Við hjá KR erum gífurlega ánægð að hafa náð að sannfæra Ole Martin um að koma til Íslands. Reynsla og menntun Ole Martin tala sínu máli og væntir KR mikils af honum. Hann er af mörgum álitinn einn allra efnilegasti þjálfari Noregs og ljóst erum að fá mikla þekkingu inn í félagið með honum. Hann hefur bæði þjálfað sjálfur meistaraflokka í deildarkeppni sem og svo hefur hann einnig reynslu af því að vera aðstoðarþjálfari á hæsta stigi í Noregi,“ segir Rúnar Kristinsson, þjálfari meistaraflokks KR.
Ole Martin hefur störf hjá KR fyrsta janúar 2023.