FH vann afar mikilvægan 4-2 sigur á Leikni í fallbaráttunni í neðri hluta Bestu deildar karla í dag. Með sigrinum fer FH upp fyrir Leikni og er nú tveimur stigum frá fallsæti.
„Það er ekki hægt að neita því að þetta er léttir, en á sama tíma ætluðum við okkur að vinna og reiknuðum með að vinna. Við erum í keppni um að halda okkur í deildinni og þá telja þessi stig ofsalega mikið,“ segir Sigurvin Ólafsson, þjálfari FH, við 433.is eftir leik.
„2-0 fannst mér vera á leiðinni í 3-0 en þá kemur 2-1 upp úr engu. Það er alltaf högg að fá á sig mark, sérstaklega eftir okkar sumar.“
Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH, skoraði þrennu í leiknum. „Þetta er móment til að stíga upp og sýna úr hverju maður er gerður. Matti er sannur leiðtogi sem stóð undir því.“
Tímabilið hefur verið ótrúlegt fyrir Sigurvin. Í upphafi sumars var hann þjálfari KV og í þjálfarateymi KR. Nú er hann aðalþjálfari stórliðs FH, eftir að Eiður Smári Guðjohnsen steig til hliðar á dögunum.
„Lífið er yndislegt. Það er gaman að takast á við það að hlutirnir breytist og breytist hratt. Í grunninn eru það strákarnir sem bjarga þessu. Ég er að byggja einhvern ramma og halda öllum góðum.“
Næsti leikur FH er á útivelli gegn Keflavík. „Með einhverjum göldrum þurfum við að breyta Keflavíkurvelli í Krikann, þannig að við náum í úrslit þar. Þó við höfum unnið í dag er þetta hvergi nærri búið.“
Sigurvin var í svartri hettupeysu á hliðarlínunni í dag. Gráir gallar hans og Eiðs hafa vakið mikla athygli í sumar.
„Gráu gallarnir voru hættir að gefa og þá breytir maður.“