Paul Scholes, goðsögn Manchester United, gagnrýndi einn leikmann liðsins sérstaklega eftir leik við Omonia frá Kýpur í gær.
Man Utd vann þennan leik 3-2 og spilaði innkoma Marcus Rashford stórt hlutverk en hann skoraði tvö mörk eftir að hafa komið inná í hálfleik.
Scholes ræddi bæði Jadon Sancho og Antony eftir leik og hafði ekki of góða hluti að segja um vængmennina.
Scholes segir að báðir leikmenn séu ekki að reyna að komast inn fyrir vörn andstæðingana og segir einnig að Brasilíumaðurinn sé nokkuð einhæfur á kantinum.
,,Sancho er ekki í því að hlaupa inn fyrir vörnina. Hann þarf fljótan vinstri bakvörð eða framherja sem hann getur spilað með en það er ekki staðan í dag,“ sagði Scholes.
,,Antony líka hinum megin, hann er ekki að taka þessi hlaup. Hann virðist vera mjög einhæfur. Hann er alltaf að koma inn á völlinn og gefur boltann annað hvort á bakvörðinn eða tekur skot.“
,,Ég tel að hann þurfi að þróa sinn leik töluvert. Hann var bara að byrja og við verðum að sýna því virðingu.“