Erik ten Hag notaði ekki Cristiano Ronaldo í tapi Manchester United gegn Manchester City í gær. Hann hefur nú útskýrt af hverju hann tók þá ákvörðun.
City lék á alls oddi í gær. Erling Braut Haaland og Phil Foden skoruðu báðir þrennu fyrir liðið. Mark frá Antony og tvö frá Anthony Martial löguðu stöðuna aðeins fyrir United, sem tapaði 6-3.
Cristiano Ronaldo var sem fyrr segir ónotaður varamaður í leiknum. Ten Hag var spurður út í þetta eftir leik.
„Ég gat ekki sett hann inn á af virðingu við Cristiano, hans glæsta ferils,“ svaraði hollenski stjórinn.
Ronaldo hefur misst byrjunarliðssæti sitt hjá United eftir að hafa verið lykilmaður á síðustu leiktíð.
Potúgalinn reyndi hvað hann gat að komast frá Rauðu djöflunum í sumar en allt kom fyrir ekki.