Gabby Agbonlahor, fyrrum leikmaður í ensku úrvalsdeildinni telur að það muni ekki duga fyrir Liverpool að kaupa aðeins Darwin Nunez ætli liðið sér að hrifsa Englandsmeistaratitilinn úr höndum Manchester City á næsta tímabili.
Nýjustu fregnir herma að Darwin Nunez, framherji portúgalska liðsins Benfica sé mjög nálægt því að ganga til liðs við Liverpool.
,,Þetta er topp-leikmaður,“ sagði Agbonlahor í samtali við talkSPORT. ,,Hann mun styrkja liðið en Liverpool þarf miðjumenn.“
Agbonlahor segir Liverpool í raun þurfa tvo miðjumenn. ,,Thiago glímir við meiðslavandræði, draga fer af Henderson núna, hann er kominn á þann aldur… Jude Bellingham myndi passa fullkomlega í þetta Liverpool-lið.“
,,Tveir miðjumenn og Nunez. Þá getur Liverpool barist um titilinn við Manchester City á næsta tímabili.“