Valur og Víkingur R. mættust á Origo-vellinum í stórleik í Bestu deild karla í kvöld.
Markalaust var eftir fremur bragðdaufan fyrri hálfleik.
Eftir tæpar tíu mínútur af seinni hálfleik fékk Víkingur svo vítaspyrnu. Nikolaj Hansen tók hana og skoraði með því að vippa boltanum á mitt markið.
Þegar 20 mínútur lifðu leiks neyddist Guy Smit, markvörður Vals, til að fara af velli vegna meiðsla. Nokkrum mínútum síðar skoraði Logi Tómasson annað mark gestanna með laglegu skoti.
Helgi Guðjónsson slapp inn fyrir vörn heimamanna á 84. mínútu og gerði þriðja mark Íslandsmeistaranna.
Valur fékk svo vítaspyrnu seint í leiknum. Arnór Smárason skoraði úr henni af öryggi. Það var þó of lítið, of seint. Lokatölur 1-3.
Liðin eru í fjórða og fimmta sæti deildarinnar með 13 stig, Valur er ofar á markatölu. Víkingur hefur þó spilað leik meira en flest önnur lið í deildinni.