Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool segir að hann „gæti ekki verið stoltari“ af sínum mönnum eftir sigur gegn Chelsea í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar í dag.
Markalaust var eftir framlengingu, rétt eins og í úrslitaleiknum í deildarbikarnum fyrr á leiktíðinni þar sem Liverpool vann einnig í vítaspyrnukeppni.
Grikkinn Kostas Tsimikas tryggði Liverpool áttunda enska bikarmeistaratitilinn í sögu félagsins í bráðabana eftir að Alisson hafði varið spyrnu Mason Mount.
„Ég gæti ekki verið stoltari af strákunum mínum, baráttuandanum og frammistöðunni,“ sagði Klopp í viðtali eftir leik. „Þetta var ótrúlegur leikur, æsispennandi vítaspyrnukeppni, neglurnar mínar eru farnar.“
Klopp varð í dag fyrsti þýski knattspyrnustjórinn til að lyfta enska bikarnum eftir að hafa haft betur gegn Thomas Tuchel á Wembley í annað sinn á þremur mánuðum.