Sirius tók á móti Elfsborg í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeild karla í fótbolta í kvöld. Sveinn Aron Guðjohnsen var í byrjunarliði Elfsborg og Aron Bjarnason byrjaði fyrir heimamenn í Sirius.
Markalaust var í hálfleik en Christian Kouakou kom Sirius yfir á 56. mínútu og Aron tvöfaldaði forystuna sjö mínútum síðar og þar við sat, lokatölur 2-0.
Aron fór af velli þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma en Sveinn Aron fór af velli á 73. mínútu.
Sirius er í sjötta sæti deildarinnar með 13 stig eftir átta leiki. Elfsborg er í níunda sæti með 11 stig.