Samkvæmt RMC Sport hefur Manchester United þegar sett sig í samband við umboðsmann Eduardo Camavinga og greint frá áhuga sínum á leikmanninum.
Camavinga er 18 ára gamall og leikur með Rennes í Frakklandi. Þrátt fyrir ungan aldur er leikmaðurinn algjör lykilmaður í liði Rennes.
Man Utd mun á næstu dögum hitta talsmenn Camavinga þar sem hugsanleg skipti leikmannsins á Old Trafford verða til umræðu.
Frakkinn á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Rennes. Félaginu gæti því legið á að selja hann til að eiga ekki á hættu að missa hann frá sér frítt næsta sumar.
Camavinga á, þrátt fyrir ungan aldur, þrjá landsleiki fyrir A-landslið Frakklands á bakinu. Hann skoraði í fyrsta byrjunarliðsleik sínum gegn Úkraínu.
Það er nóg að gera á skrifstofu Man Utd. Félagið vinnur í því að klára félagaskipti Jadon Sancho til félagsins frá Dortmund.