Rafa Yuste og Mateu Alemany, umboðsmenn spænska félagsins Barcelona, ferðuðust til Doha á þriðjudag og funduðu með umboðsmönnum Xavi á miðvikudag. Þetta herma heimildir miðilsins Reuters.
Xavi er núverandi knattspyrnustjóri Al Sadd í Katar og vill félagið alls ekki sleppa honum á þessum „viðkvæma tímapunkti leiktíðarinnar.“
„Afstaða félagsins hefur verið skýr frá upphafi – við erum staðráðin í að halda Xavi hjá okkur,“ sagði Turki Al-Ali, formaður Al Sadd. „Við getum ekki leyft honum að fara á þessum viðkvæma tímapunkti leiktíðarinnar.“
Barcelona rak Ronald Koeman í síðustu viku eftir 4 sigra í 11 leikjum á tímabilinu. Liðið er í 9. sæti, 9 stigum á eftir toppliði Real Sociedad.
Joan Laporta, forseti félagsins, sagði á föstudag að hann væri í sambandi við Xavi. „Ég hef alltaf sagt að Xavi verður einn daginn knattspyrnustjóri Barcelona en ég veit ekki hvenær það verður,“ sagði Laporta.
„Við erum með frábær meðmæli um Xavi frá Al Sadd. Allir fréttir af Xavi eru jákvæðar. Við getum talað lengi um Xavi, en ég get ekki gefið ykkur fleiri upplýsingar. Hann er í öllum blöðunum, en við höfum einnig aðra möguleika.“