Ísland tók á móti Þýskalandi í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld. Þjóðverjar voru miklu sterkari í leiknum og unnu öruggan 4-0 sigur. Þetta hafði Þórir Jóhann Helgason að segja í viðtali við Rúv að leik loknum:
„Ég er bara mjög sáttur að fá þetta tækifæri, mér fannst við spila þokkalega. Svosem hundleiðinlegt að tapa en það gerist í fótbolta og áfram gakk,“ sagði Þórir Jóhann í viðtali við Rúv.
„Þetta eru mjög stór nöfn en við spáðum ekkert í því fyrir leikinn. Þetta eru bara 11 treyjur á vellinum og við erum bara að spila fótbolta. En að spila á móti svona góðum fótboltamönnum er alltaf skemmtilegt.“
Edda Sif spurði Þóri út í það hvort það kæmi honum á óvart hve hratt hann komst í byrjunarlið landsliðsins og var hann þá orðinn afar þreyttur.
„Nei alls ekki, eða jújú. Ég er bara mjög þreyttur,“ sagði Þórir Jóhann að lokum við Eddu Sif á Rúv.