Það kemur fyrir að knattspyrnumenn gerist svo djarfir að skipta yfir úr félagi sínu og í erkifjendur þess. Daily Star tók saman lista yfir níu eftirminnileg slík félagaskipti.
Sol Campbell – Frá Tottenham í Arsenal
Miðvörðurinn fór til Arsenal frá Tottenham á frjálsri sölu sumarið 2001, þvert á það sem hann hafði sagt fyrr um sumarið. Hann vann Englandsmeistaratitilinn með Arsenal á sínu fyrsta tímabili. Campbell er hataður af flestum stuðningsmönnum Tottenham vegna skiptanna.
William Gallas – Frá Chelsea til Arsenal
Fór frá Chelsea til Arsenal sumarið 2006 í skiptidíl þar sem Ashley Cole fór í hina áttina. Gallas hafði unnið ensku úrvalsdeildina með fyrrnefnda liðinu tvö ár í röð. Gallas er sakaður um að hafa hótað því að ætla að skora sjálfsmörk, yrði hann áfram valinn fyrir Chelsea til þess að komast frá félaginu.
Ashley Cole – Frá Chelsea til Arsenal
Sagðist bara vilja fara til félags utan Englands en snerist fljótt hugur þegar Chelsea bauð honum að tvöfalda laun sín.
Carlos Tevez – Frá Man Utd til Man City
Agentínumaðurinn fór til City frá United á 25 milljónir punda fljótlega eftir að moldríkir eigendur keyptu fyrrnefnda félagið. Frægt er þegar Man City lét hengja upp borða þar sem Tevez var boðinn velkominn til Manchester.
Oscar Ruggeri – Frá Boca Juniors til River Plate
Skiptin áttu sér stað árið 1984. Það að kveikt hafi verið í húsi Ruggeri eftir skiptin segir nóg.
Jack Colback – Frá Sunderland til Newcastle
Miðjumaðurinn fór frá Sunderland til Newcastle árið 2014. Skiptin voru, eins og gefur að skilja, alls ekki vinsæl hjá stuðningsmönnum fyrrnefnda liðsins. ,,Við veittum honum það tækifæri að verða atvinnumaður í knattspyrnu og erum því virkilega vonsvikin yfir þeim atvikum sem hafa leitt til þess að hann fari frá félaginu,“ stóð í yfirlýsingu Sunderland eftir að Colback fór.
Luis Figo – Frá Barcelona til Real Madrid
Skipti sem fáir þora að taka en það gerði Figo árið 2000. Svínshöfði var kastað í átt að Portúgalanum þegar Real Madrid og Barcelona mættust eftir skipti hans.
Steven Defour – Frá Standard Liege til Anderlecht
Þegar Defour sneri aftur á sinn gamla heimavöll voru stuðningsmenn Standard með risaborða í stúkunni þar sem mynd var af Defour þar sem búið var að saga hausinn á honum af. Það segir sitt um bræðina.
Nick Barmby – Frá Everton til Liverpool
Fór frá Everton til Liverpool þrátt fyrir risasamningstilboð þeirra fyrrnefndu. Varð fyrir það hataður af stuðningsmönnum Everton, ekki bætti úr skák þegar hann skoraði gegn þeim í fyrsta slag liðanna eftir félagaskiptin.