Fjórum leikjum var að ljúka í efstu deild kvenna í fótbolta. Tindastóll vann mikilvægan útisigur á Selfossi á meðan Fylkir tapaði heima fyrir Þór/KA. Keflavík og Íslandsmeistarar í Val gerðu 1-1 jafntefli og Þróttur R. vann ÍBV 3-2.
Tindastóll hafði ekki unnið í síðustu fimm leikjum þegar það sótti Selfyssinga heim í dag. Laura-Roxana Rus kom Tindastóli yfir á 23. mínútu áður en að Aldís María Jóhannsdóttir skoraði tvö mörk á síðustu tíu mínútunum. Tindastóll er í næstnæðsta sæti með 14 stig, þremur stigum frá Keflavík í síðasta örugga sætinu þegar ein umferð er eftir, en Keflavík er með betri markatölu.
Fylkir tapaði þá 1-2 fyrir Þór/KA á Wurth vellinum í Árbænum. Karen María Sigurgerisdóttir kom Þór/KA yfir á 22. mínútu en Katla María Þórðardóttir jafnaði fyrir Fylkiskonur sex mínútum síðar. Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði sigurmarkið undir lok fyrri hálfleiks. Fylkir er þar með fallið úr efstu deild. Þór/KA er í 6. sæti með 21 stig.
Valskonur voru þegar búnar að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn þegar þær mættu Keflavík á heimavelli í dag. Ída Marín kom Val yfir á 3. mínútu en Aerial Chavarin skoraði fyrir Keflavík eftir rúman hálftíma leik og tryggði þeim þar með mikilvægt stig í fallbaráttunni.
Þróttur R. vann ÍBV 3-2 á Eimskipsvellinum. Álfhildur Rósa Kjartansdóttir og Andrea Rut Bjarnadóttir komu Þrótturum í 2-0 í fyrri hálfleik áður en að Selma Björt Sigursveinsdóttir og Clara Sigurðardóttir jöfnuðu fyrir ÍBV. Andrea Rut var aftur á ferðinni þegar hún skoraði sigurmark Þróttara þegar að þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Þróttur R. er í 3. sæti með 29 stig. ÍBV er í 7. sæti með 19 stig.