Fjölmargir leikir fóru fram í Evrópuhluta undankeppni Heimsmeistaramótsins 2022 í kvöld. Hér fyrir neðan er stutt yfirferð.
Liechtenstein 0-2 Þýskaland (riðill Íslands)
Þjóðverjar unnu Liechtenstein á útivelli, þó ekki eins stórt og einhverjir hefðu búist við.
Timo Werner kom þeim yfir á 41. mínútu. Leroy Sane innsiglaði 0-2 sigur á 77. mínútu.
Þjóðverjar eru í öðru sæti riðilsins með 9 stig. Liechtenstein er á botninum án stiga.
Norður-Makedónía 0-0 Armenía (riðill Íslands)
Norður-Makedónía og Armenía gerðu markalaust jafntefli á heimavelli þeirr fyrrnefndu.
Armenía er á toppi riðilsins með 10 stig. Norður-Makedónar eru í þriðja sæti með 7 stig.
Þess má geta að Íslendingar eru í fimmta, næstneðsta, sæti riðilsins með 3 stig.
Georgía 0-1 Kósóvó (B-riðill)
Svíþjóð 2-1 Spánn (B-riðill)
Svíar tóku á móti Spánverjum og unnu glæsilegan sigur.
Carlos Soler kom gestunum yfir á 5. mínútu. Alexander Isak svaraði þó strax um hæl með jöfnunarmarki fyrir Svíþjóð.
Viktor Claesson tryggði svo 2-1 sigur heimamanna með marki á 57. mínútu.
Svíþjóð er á toppi B-riðils með 9 stig eftir að hafa leikið aðeins þrjá leiki. Spánn er í öðru sæti með 7 stig eftir að hafa leikið einum leik meira.
Ítalía 1-1 Búlgaría (C-riðill)
Evrópumeisturum Ítala tókst ekki að sigra Búlgaríu á heimavelli.
Federico Chiesa kom Ítalíu yfir eftir rúman stundarfjórðung. Atanas Iliev jafnaði fyrir gestina skömmu fyrir hálfleik og þar við sat.
Ítalir eru á toppi riðilsins mðe 10 stig eftir fjóra leiki. Búlgarir eru í fjórða sæti með 2 stig eftir jafnmarga leiki.
Litháen 1-4 Norður-Írland (C-riðill)
Tékkland 1-0 Hvíta-Rússland (E-riðill)
Eistland 2-5 Belgía (E-riðill)
Belgía vann Eistland á útivelli í miklum markaleik.
Romelu Lukaku gerði tvö mörk fyrir Belga. Hin mörkin skoruðu þeir Hans Vanaken, Axel Witsel og Thomas Foket. Mattias Kait og Erik Sorga skoruðu fyrir Eista.
Belgar eru á toppi riðilsins með 10 stig eftir fjóra leiki. Eistar eru á botninum, án stiga eftir þrjá leiki.
Ungverjaland 0-4 England (I-riðill)
Englendingar heimsóttu Ungverja og unnu öruggan sigur.
Áhorfendur þurfu þó að bíða fram í seinni hálfleik eftir öllum mörkunum. Raheem Sterling kom gestunum yfir á 55. mínútu. Harry Kane tvöfaldaði forystuna á 63. mínútu.
Harry Maguire kom Englandi í 3-0 á 69. mínútu og í lok leiks innsiglaði Declan Rice 0-4 sigur.
England er á toppi riðilsins með fullt hús stiga eftir fjóra leiki. Ungverjar eru í þriðja sæti með 7 stig eftir jafnmarga leiki.
Pólland 4-1 Albanía (I-riðill)
Andorra 2-0 San Marínó (I-riðill)