Fyrrum UFC-bardagakappinn Khabib Nurmagomedow segist hafa vitað af yfirvofandi skiptum Cristiano Ronaldo til Manchester United mánuði áður en þau gengu í gegn. Þeir félagar eru góðir vinir.
Hinn 36 ára gamli Ronaldo sneri óvænt aftur til Man Utd á dögunum frá Juventus á Ítalíu. Portúgalinn lék áður með enska félaginu á árunum 2003 til 2009. Hann er lifandi goðsögn á meðal stuðningsmanna.
,,Hann sagði mér fyrir mánuði síðan að hann væri á leið til Manchester United. Ég bjóst við því að skiptin færu í gegn. Ég tel Manchester United henta honum betur en Juventus,“ sagði Khabib við fjölmiðla í heimalandi sínu, Rússlandi.
Rússinn greindi svo frá því að hann og Ronaldo væru ansi góðir vinir.
,,Við tölum nánast saman á hverjum degi. Þegar við hittumst ræddum við um það hvað drífur okkur áfram,“ sagði Khabib.
,,Hann sagði mér að hann vildi sjá son sinn taka við keflinu af sér. Þegar Cristiano var barn vildi hann bara eiga venjulegt par af fótboltaskóm. Sonur hans á hins vegar allt. Hann er hræddur um að sonur hans muni skorta hungrið og viljann sem hann hefur.“
Khabib Nurmagomedov: “A month ago, he [Cristiano Ronaldo] told me that he was moving to Manchester United. I expected this deal to take place. I think that Manchester United is more suitable for him than Juventus. For me, the move was not a surprise.” [@rsportru] pic.twitter.com/KnF3tfeqT9
— United Zone (@ManUnitedZone_) September 2, 2021