Íslenska karlalandsliðið tapaði fyrir því rúmenska í undankeppni HM 2022 í kvöld. Leikið var á Laugardalsvelli.
Strax á 4. mínútu skapaðist hætta fyrir íslensku vörnina. Rúnar Alex Rúnarsson hreinsaði þá í innkast sem gestirnir voru fljótir að taka. Þeir komu skoti á markið sem fór þó blessunarlega yfir. Fyrsta marktæka færi Íslands kom eftir stundarfjórðung. Þá stakk Birkir Bjarnason boltanum smekklega inn fyrir vörn Rúmena á Viðar Örn Kjartansson sem skallaði í átt að marki en Florin Nita, markvörður Rúmena, sá við honum.
Á 23. mínútu átti Hjörtur Hermannsson skelfilega sendingu til baka, ætlaða Rúnari. Sorescu Deian komst í boltann en náði ekki nægilega góðri fyrstu snertingu á boltann. Færið rann út í sandinn. Eftir um hálftíma leik fékk Birkir Bjarnason fínt tækifæri til að skora en Nita varði þá frá honum af stuttu færi.
Íslendingar voru heilt yfir betri aðilinn í fyrri hálfleik, bjuggu til betri færi en Rúmenar. Staðan í hálfleik var þó markalaus. Íslenska liðið fékk martraðarbyrjun á seinni hálfleiknum. Á 47. mínútu kom Dennis Man Rúmenum yfir. Hann var þá mættur á fjær til að koma fyrirgjöf frá Nicolae Stanciu í markið. Sending Stanciu hafði viðkomu í Brynjari Inga Bjarnasyni á leið til Man.
Á 54. mínútu komst Ísland nálægt því að jafna þegar fyrirgjöf Jóhanns Bergs Guðmundssonar, sem var fyrirliði Íslands í dag, rataði á kollinn á Viðari sem skallaði rétt framhjá. Rúmenar tóku skömmu eftir markið sitt upp á því að tefja og hægja á leiknum. Íslenska liðið hélt boltanum nokkuð vel en tókst ekki að brjóta gestina á bak aftur að neinu viti fyrri hluta seinni hálfleiksins.
Þegar um 20 mínútur lifðu leiks leiddi góður spilkafli Íslands til þess að Ísak Bergmann Jóhannesson komst í góða skotstöðu inni á teig Rúmena. Skot hans var þó laust og beint á markvörð Rúmena. Um fimm mínútum síðar fékk Birkir Bjarnason dauðafæri á markteig gestanna. Hann setti boltann framhjá. Birkir var með mann í bakinu sem gerði vel í að trufla hann.
Stanciu gerði svo gott sem út um leikinn fyrir Rúmena með marki eftir skyndisókn á 83. mínútu. Hann slapp einn í gegn og kláraði vel.
Lokatölur leiksins urðu 0-2 fyrir Rúmena. Ísland er í fimmta sæti undanriðilsins með aðeins 3 stig eftir fjóra leiki. Rúmenía er með 6 stig, sæti ofar. Draumurinn um HM í Katar árið 2022 er svo gott sem úr sögunni.
Byrjunarlið Íslands:
Rúnar Alex Rúnarsson 6 – Maður leiksins
Gat ekkert gert í mörkunum og stóð sig vel.
Birkir Már Sævarsson 5
Kom öflugur upp hægri vænginn og ekki hægt að kvarta yfir Birki í hans 99 landsleik.
Brynjar Ingi Bjarnason 4
Nokkuð öruggur í sínum aðgerðum framan af leik en fyrsta markið setti smá stress í hann.
Hjörtur Hermansson 4
Klaufskur á köflum stóran hluta leiksins. Úr stöðu og vann ekki návígi sem hann á að klára.
Guðmundur Þórarinsson 5
Góðar fyrirgjafir og gerði vel fram á við en var sofandi í fyrsta mark leiksins og missti manninn fram fyrir sig.
Jóhann Berg Guðmundsson 5
Átti margar góðar fyrirgjafir sem ekki náðist að nýta.
Guðlaugur Victor Pálsson 4
Vann boltann oft vel en komst lítið áleiðis í spili.
Birkir Bjarnason 5
Ágætis leikur en margar sendingar í fyrri hálfleik voru sendar á vitlausu „tempói“ þegar tækifæri var til að sækja hratt á Rúmeníu.
Andri Fannar Baldursson (´67) 5
Ágætis innkoma á miðsvæðið hjá Andra undir erfiðum kringumstæðum.
Albert Guðmundsson 4
Fínir taktar en oft rangar ákvarðanir á síðasta þriðjungi.
Viðar Örn Kjartansson (´67) 5
Kom sér í nokkur góð færi, fékk eitt dauðafæri í fyrri hálfleik en skalli hans rataði ekki í markið.
Varamenn:
Ísak Bergmann Jóhannesson (´67) 5
Ágæt innkoma hjá þessum unga miðjumanni
Jón Dagur Þorsteinsson (´67) 4
Sást lítið eftir innkomu sína