Cristiano Ronaldo segir að Sir Alex Ferguson sé stærsta ástæðan fyrir endurkomu sinni til Manchester United. Ronaldo skrifar undir tveggja ára samning við United en hann verður 38 ára gamall þegar hann er á enda, möguleiki er svo á að framlengja samninginn um ár til viðbótar.
United staðfest kaup sín á Ronaldo á föstudag en um helgina fór kappinn í læknisskoðun og gekk frá öllum sínum málum við félagið.
Ronaldo yfirgaf United árið 2009 og gekk þá í raðir Real Madrid, árið 2018 gekk hann í raðir Juventus.
Ronaldo hefur verið einn besti knattspyrnumaður í heimi um langt skeið en mikil eftirvænting er í herbúðum United fyrir heimkomu hans.
„Ég kann svo vel við Ferguson, hann var stærsta ástæða þess að ég er í þeirri stöðu að koma aftur og skrifa undir hjá Manchester United,“ sagði Ronaldo en viðtalið er í heild hér að neðan.