Garðar Gunnlaugsson fyrrum landsliðsmaður og atvinnumaður í knattspyrnumanni segir að aðeins sé búið að segja upp minsta hlutanum af vandamálinu í heimi fótboltans, nú þegar stjórn og formaður KSÍ hefur sagt af sér.
Hann segir að búið sé að snyrta toppinn af trénu en nú þurfa að búa til heilbrigðara umhverfi.
„Jæja strákar, núna er búið að segja upp minnsta hlutanum af vandamálinu, stjórn KSÍ. Vandamálið liggur þó ekki þar, vandamálið á stóran uppruna í þessari „toxic“ menningu sem við höfum allir alist upp í sem íþróttamenn, hvort sem áhuga- eða atvinnumenn,“ skrifaði Garðar í færslu sem hann deilir á Twitter.
— Gardar Gunnlaugsson (@Gunnlaugsson9) August 30, 2021
Hann segir að breyting á umhverfinu muni taka tíma en hann segir að kvenfyrirlitning hafi einkennt heim fótboltans.
„Við höfum tækifæri núna til þess að breyta þessari menningu og sjá til þess að ungir iðkendur alist upp í heilbrigðara umhverfi þar sem kvenfyrirlitning og mismunun gagnvart minnihlutahópum heyri sögunni til. Þetta er ekki „overnight“ breyting, þetta mun taka tíma en látum þetta byrja hjá okkur! Verum fyrirmyndir!“
Garðar telur að nú þurfi að fara í naflaskoðun til að finna hvar rót vandans er. „Íþróttahreyfingin þarf að fara í naflaskoðun og ráðast á rót vandans, það þýðir ekki bara að snyrta toppinn af trénu, meiri fræðsla til iðkenda og meiri þjálfun leiðbeinenda er lágmarkskrafa,“ skrifaði Garðar.