Cristiano Ronaldo hefur lokið læknisskoðun hjá Manchester United. Sky Sports segir frá og gekk allt eins og í sögu.
Læknisskoðun Ronaldo fór fram í Lisbon í Portúgal, þangað flaug kappinn eftir að hafa yfirgefið Juventus á föstudag.
Félagaskiptaglugginn lokar á morgun en United er að bíða eftir grænu ljósi um atvinnuleyfi og þá verða kaupin tilkynnt.
Ronaldo hefur samið um kaup og kjör við United en talið er að hann taki talsverða launalækkun hjá United. Hjá Juventus þénaði Ronaldo yfir 500 þúsund pund á viku en hjá United er talið að þau verði í kringum 450 þúsund pund á viku.
Ronaldo er 36 ára gamall en hann snýr til baka eftir tólf ár hjá Real Madrid og Juventus.
Ronaldo er einn besti knattspyrnumaður sögunnar en margir efast um að hann geti slegið í gegn 36 ára gamall í enska boltanum.