Manchester United hafði engan áhuga á að semja við stórstjörnuna Cristiano Ronaldo fyrr í sumar en ákváðu að bjóða í kappann undir lok gluggans þar sem félagið gat ekki hugsað sér að sjá hann spila fyrir Manchester City að því er segir í frétt Daily Mail.
Manchester United bauð Ronaldo velkominn heim á samfélagsmiðlum fyrir helgi og lauk hann læknisskoðun í Portúgal í dag. Það leit út fyrir í síðustu viku að portúgalska stórstjarnan væri á leið til Englandsmeistara Manchester City.
Í frétt Manchester Evening News segir að á föstudagsmorgun hafi Manchester City verið eini klúbburinn sem sýndi Ronaldo áhuga. Manchester United virtist vera ánægt með lið sitt sóknarlega en þegar liðið frétti af því að Ronaldo væri á leið til erkifjendanna breyttu þeir um skoðun.
Stjórnarmenn Manchester United fengu Sir Alex Ferguson til að hringja í kappann og gamlar goðsagnir og fyrrum liðsfélagar hans sendu honum skilaboð. Ronaldo á svo að hafa tekið endanlega ákvörðun þegar hann sá samninginn sem honum var boðinn frá Manchester United sem gerir hann að launahæsta leikmanni deildarinnar.