Gareth Southgate mátti þola áreiti og hálfgerðar árásir eftir að hann hvatti fólk til þess að fara í bólusetningu, um var að ræða auglýsingu í Bretlandi.
Southgate ætlar því ekki að blanda sér í umræðuna um það hvort knattspyrnumenn eigi að skella sér í bólusetningu.
„Ég ætla ekki að ræða það, ég var beðinn um að taka upp myndband til að hvetja fólk í bólusetningu. Ég taldi það ábyrg af mér að gera slíkt, ég hef fengið ótrúlegt skítkast vegna þess í sumar. Ég hef aldrei verið áreittur jafn mikið í mínu lífi,“ sagði Southgate.
„Þegar þú reynir að gera eitthvað svona, þá veist þú að það verði ekki allir glaðir. Það var mikið áreiti í kringum þetta mál.“
„Ég get sætt mig við það en ég ætla ekki að ræða bólusetningar á þessum fundi.“
Southgate er að undirbúa enska landsliðið fyrir undankeppni HM sem heldur áfram í næstu viku.