Lars Lagerback verður ekki áfram í þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins en Arnar Þór Viðarsson þjálfari liðsins tók þá ákvörðun að hafa hann ekki lengur í teymi sínu.
Lagerback var ráðinn sem aðstoðarþjálfari liðsins í upphafi árs en mætti aðeins í eitt verkefni, hugmyndir hans náðu ekki saman við hugmyndir Arnars og Eiðs Smára Guðjohnsen.
Lagerback ræddi málið við Stöð2 en Arnar Þór heldur því fram að Lagerback hafi ekki verið rekinn úr starfi. „Ég hefði glaður viljað halda áfram því að eins og þið vitið voru þetta líklega bestu fjögur til fjögur og hálft ár sem ég hef átt sem þjálfari,“ sagði Lagerback sem elskar Ísland mikið eftir dvöl sína frá 2012 til 2016 þegar hann kom liðinu ásamt Heimi Hallgrímssyni á Evrópumótið.
Lagerback segir við Stöð2 að hans hugmyndir og Arnars hafi ekki náð saman. „Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá höfðum við kannski ekki alveg sömu hugmyndir. Auðvitað virði ég ákvörðun Arnars. Hann verður að fara sínar leiðir ef það er það sem hann vill og ég er alls ekkert fúll yfir þessari ákvörðun.“
„Þetta er svolítið leiðinlegt, en svona er lífið og vonandi munu þeir standa sig vel.“